Shadow Creations er nefnt eftir besta ketti í heimi, honum Skugga. Hann féll frá eftir stutt veikindi þann 2. febrúar 2025, þá 14 ára gamall.
Þegar við komumst að því hversu veikur hann væri ákvað ég að nefna merkið mitt í höfuðið á honum og þannig heiðra minningu hans. Hann var alltaf nálægt mér þegar ég var að búa til snið, sauma, steina o.s.fr.v. Hann var einungis 6 vikna þegar hann kom til okkar svo við tvö ólumst upp saman.
Ég hef æft samkvæmisdansa síðan ég var 5 ára og áhugi á saumaskap kviknaði þegar ég var 13 ára. Fyrsta stóra saumaverkefnið mitt var fermingarkjóllinn minn en fljótlega eftir það fór ég að sauma mér pils, kjóla og æfingaföt fyrir dansinn. Í febrúar 2024 saumaði ég fyrsta keppniskjólinn minn og var þá ekki aftur snúið.Ég fór í kjölfarið að taka að mér að lagfæra keppniskjóla fyrir aðra og nú nýlega fór ég að taka að mér að sauma keppniskjóla fyrir aðra frá grunni.
Ég er þessa stundina að læra kjólasaum í Tækniskólanum en ég kláraði fatatækni í desember 2024.
